Vatn er náttúruleg auðlind sem virðist gera stóran hluta vinnunnar fyrir okkur í átt að vellíðan og heilbrigði. Til eru athuganir þess efnis að nærvera við vatn ein og sér hefur mjög jákvæð og róandi áhrif á taugakerfið.
Þá má einnig renna stoðum undir það að líkamleg meðhöndlun og afvinding líkamans gangi greiðlegar í vatni. Bæði vegna þess að hugurinn hvílist betur, en einnig vegna þess að vatn dregur úr áhrifum þyngdaraflsins á alla liði og vefi. Líkaminn okkar er 70% vatn og frumur líkamans virðast bregðast vel við meðhöndlun og veru í vatni. Heilt yfir er það ekki fyllilega rannsakað, en við vitum að líkaminn sjálfur verður til í vatni af náttúrunnar hendi.
Í meðferðinni vinnum við með ákjósanlega flotstöðu mismunandi líkamsgerða með tilheyrandi stuðningsbúnaði. Við leggjum upp með mjúkar hreyfingar til að opna líkamann og skapa samhljóm við vatnið; nuddstrokur til að styrkja líkamlega tengingu, örva blóðflæði og losa um tauga- og vöðvaspennu. Við notumst einnig við þar til gerðar augnhvílur til að draga úr áhrifum skynfæra okkar og örva innri skynjun í staðinn. Allt er þetta til þess fallið að skapa rými fyrir nærandi upplifun.
Við meðferðina losnar um ýmis konar spennu sem hefur e.t.v safnast upp í gegnum tíðina við daglegt strit. En markmið meðferðarinnar er einfaldlega að ýta undir náttúrulega vellíðan og gera kerfinu okkar kleift að vinna betur af sjálfsdáðum. Flot getur því aukið lífsgæði okkar og almennt heilbrigði. Það virkar einnig vel með öðrum úrvinnsluferlum og meðferðum. Það er gott fyrir almenna endurheimt huga og líkama og er skilvirk aðferð til að draga úr streitu.
Flot- eða vatnsmeðferð er því einföld heildræn lausn og heilnæm leið sem skapar kjörið rými til að hvíla áreynslulaust í okkur sjálfum, það örvar slökun og veitir mörgum þarfa gæðastund með sjálfum sér.